Búið

Þetta er hundraðasta færslan á þessu bloggi. Mér finnst það sérdeilis prýðileg ástæða til að slaufa þessu, því það er jú ekkert nema óttalegt rugl hérna.

Þið hafið örugglega eitthvað betra að gera en að lesa þetta. Get to it. Já, snáfiði! Fuglager í mínum bíl.

Óttalega ruglinu verður svo haldið áfram á zeta falli gunna.

Góðar stundir.

The Mist

Jáááá!!! Jahaháááááááá!!!

Í þessum töluðu orðum var ég að klára að horfa á The Mist, sem er besta mynd sem ég hef séð síðan ég horfði aftur á Shawshank Redemption um jólin. Án gríns erum við ekki vinir lengur nema þú takir þér tvo klukkutíma til að sjá hana á næstu viku eða svo.

The Mist er byggð á sögu eftir Stephen King og segir frá hópi af smábæjarfólki sem leitar skjóls í matvöruverslun þegar dularfull þoka herjar á bæinn þeirra. Þetta hljómar ekki spennandi, og reyndar frekar leiðinlega, en eins og í öllum góðum spennumyndum skipta persónurnar öllu máli. Annað er bara glingur.

Öll áhersla er lögð á hvernig fólkinu í búðinni kemur saman. Ólíkar týpur hafa ólíka sýn á hvernig á að bregðast við, sérstaklega í byrjun þegar það er ekki ljóst hvað er í gangi. Ég hef lengi haft gaman af Stephen King, og veit að hann getur skrifað óttalegt rusl, en þegar hann er góður er hann frábær. Eins og The Dark Tower og The Running Man er The Mist ein af hans betri stundum.

Ég vil ekki segja meira um myndina því það gæti spillt einhverju. Sjáðu hana. Gerðu það. Hún er frábær.

And now, for some entertainment:

Frí

Það var að byrja tíu daga frí í skólanum. Ég veit ekki hvað þið gerið í svona aðstæðum, en ég ætla að horfa á hryllingsmyndir og hlusta á sándtrakkið úr Lion King.

Brasilía tapar

Eftir að hafa búið á sama gangi og þrjár brasilískar stelpur undanfarna mánuði hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðum:

i) Suður-Amerísk stuðtónlist er hundleiðinleg.
ii) Ekki allir eiga að fá að syngja í sturtu.

Rannsóknum verður haldið áfram.

Flutningabílstjórar og ráðherrar á mbl.is

Af mbl.is:

Flutningabílstjórar héldu af stað úr miðborg Reykjavíkur laust fyrir klukkan 13 og þeyttu flautur bíla sinna þegar þeir óku á brott. Kristján L. Möller, samgönguráðherra, ræddi við fulltrúa bílstjóra og sagði síðan í léttum tón: ,,Fariði nú að vinna.''

Hr. Möller hló svo lítið eitt og bætti við: ,,Oooh! Það er svo erfitt að keyra bíl!'' meðan hann hoppaði létt af einum fæti á annan, hélt höndum sínum fyrir framan sig og vaggaði þeim frá hægri til vinstri í því sem vegfarendur lýstu sem einstaklega sannfærandi eftirhermu af manni að keyra vörubíl, ,,Ég er svo þreyttur! Ég þarf að sitja allan daginn!''

Látalætin vöktu athygli annarra ráðherra sem litu einn af öðrum út um glugga og hlupu til að taka þátt í gleðinni. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, voru með þeim fyrstu út og sýndu bæði einkar sannfærandi takta sem vörubílstjórar.

Stuttu seinna bættist obbinn af hinum ráðherrunum við, ásamt góðum hluta þingheims sem hafði frétt af teitinu gegnum sms-sendingar Össurs Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra. Fremstur í flokki var Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem hafði þjóðlagagítar í fórum sínum og leiddi mannsöfnuðinn í samsöng helstu slagara Bubba Morthens, en þar á meðal taldi ,,Rækjureggí'' og ,,Ísbjarnablús''.

Eins og er virðist lítið geta stöðvað fögnuð ráðamanna, sem hafa slegið upp grillveislu og hengt upp blöð þar sem þingheimur getur beðið um óskalög. Efst á blaði eru ,,Drive my car'' með Bítlunum, ,,Blowing in the wind'' eftir Bob Dylan og ,,Sunday, bloody sunday'' með U2.

Sumir dagar maður

Jæja, ég skal þá taka á mig að mæta í grímupartí sem var að bresta út í neðanjarðargöngunum undir 18. aldar virkinu sem gnífir yfir Grenoble.

Þetta er náttúrlega ekkert nema vesen. Ég þarf að henda á mig jakka og bindi, koma við í hornversluninni hjá arabanum og kaupa áfengi, og finna sögu sem passar við fötin meðan ég rölti upp að virkinu drekkandi með krökkunum úr húsinu.

Ohh, hvað ég vildi að ég væri bara heima á Íslandi að horfa á vídjó. Það væri svo miklu einfaldara líf.

Word særir blygðunarkennd mína

Í dag gerðist loksins eitthvað sem ég er búinn að bíða eftir í langan tíma; ég sendi .txt skjal til manns og fékk það til baka með ásökunum um villutrú, skattsvik og almennan saurleika, áður en viðkomandi ákvað af góðmennsku sinni að beina mér á réttu brautina og sagði mér að nota Word. Það er jú forritið sem allar viti bornar verur hafa notað til að tjá sig síðasta áratug, sama hvaðan þær koma eða hvernig tölvu þær nota.

Síðasta mínúta hefur verið erfið; ég hef þurft að standast þá freistingu að líkja hrifningu fólks á Word við ýmsa ósiðlega hluti. Þú getur örugglega fundið einhverja hentuga myndlíkingu ef þú saknar hennar mjög, en að þeim slepptum er Word mjög vont forrit til að skrifa í. Það er tvennt sem eyðileggur það fyrir mér:

i) Word dregur athygli manns frá því að skrifa
ii) Word vistar allt í .doc formi

Fyrri ástæðan er mikilvægari. Allt sem ég skrifa, og ég meina algerlega allt frá litlum to-do listum og bloggfærslum yfir í atvinnuumsóknir, skrifa ég á .txt formi, eins og maður fær þegar maður gerir eitthvað í Notepad. Reyndar nota ég ekki Notepad heldur Emacs, sem er Hummer-jeppi textaritla, en allt endar þetta í pínulitlum textaskrám.

Þetta er rosalega þægilegt vegna þess að þetta aðskilur skrif og uppsetningu. Maður spáir ekkert í línubilum, leturgerð, feit- eða skáletrun, eða litlum svörtum punktum af því ekkert af því er til staðar. Þannig á það líka að vera. Áður en Word og slík forrit komu til sögunnar skrifaði fólk á pappír eða með ritvélum þar sem það sama gildir, og það gekk alveg ágætlega síðustu nokkur þúsund ár. Ef það gengur illa að klára eina setningu hjálpar nákvæmlega ekkert að fara að spá í hvort skáletrunin á orðinu þarna sé óþörf.

Ef einhver annar á að sjá það sem ég skrifa fer uppsetningin að skipta máli, og þá hendi ég skjalinu mínu gegnum Latex. Það er markup-mál, svipað og html, þannig í staðinn fyrir að svartletra orð og ýta á "Control + i" skrifar maður "\textit{orð}". Úr því fær maður .pdf skjöl sem bæði eru fallegri en sambærilegt úr Word og líta út fyrir að vera fagmannlegri, því ef allir kunna á Word er ekkert merkilegt að fá þannig skjal á borð til sín.

Seinni ástæðan er á yfirborðinu meiri hugsjón en alvöru punktur. Ekki allir nota Word, sem er búið til af Microsoft, sem er næg ástæða fyrir Linux lúða eins og mig til að sniðganga .doc formið. Það er þó til gild ástæða fyrir alla aðra að gera hið sama. Hefurðu einhver tímann reynt að færa .doc skjöl frá gamalli útgáfu Word yfir í nýja, eða öfugt? Þá veistu að það gengur ekki alltaf vandræðalaust, að stundum fer talsverður tími bara í að geta haldið áfram að vinna, og að stundum tapar maður skjölum.

Með að nota .doc formið bindur maður sig við að nota eitt forrit frá einu fyrirtæki, og svo krossleggur maður fingur og vonar að formið breytist ekki það mikið frá einni útgáfu til annarar að skjölin manns verði ennþá læsileg. Fólk myndi seint sætta sig við nýjan geislaspilara sem spilaði bara helminginn af plötunum þeirra, en það virðist alltaf jafn sátt við Word.

Allt í lagi, ég skal viðurkenna að fyrir einstaka hluti eins og ritgerðir eða greinar er fljótlegra og þægilegra að setja þær upp í Word en að ætla að tileinka sér frekar nördalegan hlut eins og Latex. Flott mál, en skrifaðu ritgerðina eða greinina í Notepad, Emacs eða einhverju svipuðu og færðu hana svo yfir í Word fyrir lokabreytingar. Það eru betri vinnubrögð, og næst þegar Microsoft breytir .doc forminu geturðu ennþá lesið það sem þú skrifaðir.

Ch-ch-ch-ch changes

Það eru til margar góðar leiðir til að eyða tíma sínum í allt annað en það sem maður á að vera að gera. Í prófatörnum og slíku, eða bara á fimmtudögum, langar mig yfirleitt miklu meira að taka til, lesa eitthvað eða skoða myndir af köttum en að læra eða hvað það er sem ég á að vera að gera.

Í dag er einmitt fimmtudagur, svo í staðinn fyrir að gera eitthvað af viti breytti ég lúkkinu á síðunni. Það er kannski ekkert öskrandi skemmtilegt að vaða xml upp að hnjám, en það er tilbreyting og það er skemmtilegra en að reikna Lie-afleiður.

Því er tilvalið að fagna nýju útliti síðunnar með einstaklega vel heppnaðri ábreiðu Tony Blair og David Cameron af laginu ,,Changes'' eftir David Bowie.

Haikusvar

Sem fyrri daga
í munn setur Kristján fót
haustar í höfði

Marlon Brando og ég erum einn

Það er til rosalega vond mynd með Marlon Brando sem heitir The Island of Dr. Moreau. Í henni leikur hr. Brando nett bilaðan vísindamann sem er með ofnæmi fyrir sólinni og gengur því alltaf í hvítum fötum og með risa hatt, á milli þess sem hann fer í langar göngutúra á ströndinni og splæsir saman dýrum og mönnum á frumlegan hátt.

Í dag var heiðskýrt, logn og 20 stiga hiti, og ég og félagi minn nýttum tækifærið til að rölta um bæinn, hanga á kommúnísku kaffihúsi og stara útundan okkur á sætar stelpur. Sem var mikið af. Rosalega mikið af. En eins með pabbann í Arrested Development og heita pottinn ofgerðum við þessu. Hvítir strákar eiga ekki að vera úti í sólinni. Ég er sólbrunninn, þreyttur og með svo mikinn höfuðverk að 9. áratugurinn virðist vera góð hugmynd.

Ég er farinn að finna mér hvít föt, stóran hatt, sög, teip og ketti. Það er nóg af fólki í húsinu.

Róbó-Kristur mun dæma okkur öll á komandi árum

Eins og allir dyggir lesendur Morgunblaðsins hef ég tekið eftir örri þróun tækninnar á síðustu áratugum. Internetin, farsímar, GPS tæki og VHS spólur hafa öll gerbreytt því sem við teljum góða lífið, svo mjög að í dag er sá maður sem rokkar ekki tvísmellinn í besta falli kjánalegur. Vegna starfa minna við Raunvísindadeild Háskólans er ég í sérstaklega heppilegri aðstöðu til að meta duttlunga tækniframfaranna, og nýlega hafa vindar umbreytinganna hvíslað að mér að stund gleðinnar sé ekki langt undan; eftir rúmlega tvöþúsund ára bið er upprisa frelsara Drottins vors í formi risavélmennis loks innan handar.

Fyrstu teign þessa sáust á lofti í hinni mjög svo misskildu kvikmynd Júragarðinum. Í henni var sagt frá hópi metnaðarfullra en breyskra vísindamanna sem tókst að vinna erfðaefni risaeðla úr gömlum steingervingum og einrækta þær til lífs, áður en atburðirnir fóru hræðilega úrskeiðis vegna þrumuveðurs og gjörða fégráðugs starfsmanns. Fáir átta sig hins vegar á því að þessi mynd er byggð á sönnum atburðum, og litlu var breytt öðru en að persóna Jeff Goldblum var látin klæðast leðurjakka í stað hins hefðbundna hvíta slopps vísindamannsins, til að hún höfðaði betur til unga fólksins.

Þetta vekur auðvitað von í hjörtum okkar að gera megi eitthvað svipað fyrir Son Davíðs, þó erfitt verði kannski að finna vessa Hans í moskítóflugum sem hafa varðveist í rafi. Það er eiginlega eins og að leita að nál í heystakki. Nei, vænlegra til árangurs er að líta til flísanna úr krossinum helga er dreifðar eru um allan heim. Að vísu er nægt framboð af téðum flísum til að byggja meðalstóra verslunarmiðstöð, en einhver þeirra hlýtur að geyma hið helga erfðaefni í nægu magni svo hægt verði að unga frelsaranum út. Að vísu verður hinn endurkomni Jesús þá glasabarn, en sjálfum finnst mér það bara nokkuð smekkleg heimfæring af meyjarfæðingunni á 21. öldina.

En eins og alþjóð sá með Dollí forðum daga er einræktunartæknin í besta falli ófullkomin. Þegar sannleikurinn og lífið verður loks komið til ára sinna verða frumur Hans gamlar og þreyttar, og það er enginn sem segir að hinn eingetni verði ekki nelgdur aftur, og ekki á góðan hátt. Svarið við þessum hvimlega mannleika liggur auðvitað í tölvutækni og gervigreind; með að hlaða vitund Orðsins á harðan disk verður Hans heilagleiki með okkur um alla eilífð, og hægt er að forðast allan bisnessinn með upprisu og endurkomu með að taka af Honum regluleg afrit og útbúa Hann með vírusvörn.

Þetta nýja birtingarform Drottins spilar líka mjög skemmtilega inn í vaxandi útbreiðslu þráðlauss internets; ég þori jafnvel að halda því fram að svona verði Vegurinn nær hjörtum okkar en nokkur tímann áður. Samt sem áður munu hinir vantrúuðu munu líka fá eitthvað fyrir sinn snúð. Framfarir í róbótatækni eru örari en augað greinir, og um það leiti sem tölvu- og einræktunartæknin verður komin á æskilegt stig munum við geta byggt verðugan líkama handa Messíasi. Ekkert slær ótta í hjarta Faríseanna eins og þriggja metra há holdgerving Jehóva, með gripklær, logandi sverð og þotuhreyfla, tilbúinn að varpa friðar- og sannleikssprengjum á hina óþvoðu.

Já, eins og alltaf er auðvelt að gera grín að þeim sem eru tilbúnir að viðurkenna trú sína, og ég hef orðið fyrir ómældu háði og spotti fyrir þessa sannfæringu mína. En munið orð mín, og munið þau vel þegar nanóróbótar Immanúels breyta heiðnum vessum ykkar í fiska og brauð, mólikúl fyrir mólikúl. Sá hlær best sem síðast hlær, og eilífðarvist í hinu logandi eldvatni var ekkert sérstaklega fyndin síðast þegar ég gáði. Það er aldrei of seint. Bjóddu Róbó-Krist velkominn í hjarta þitt, iðrastu gjörða þinna, og afsalaðu mér veraldlegum eignum þínum. Þær eru byrgði á sálinni, og ég skal sjá til þess að þeim verði fargað á viðeigandi hátt.

Gloria in excelsis robotium Deo.

Hvernig maður verður franskur hálfviti í fjórum einföldum skrefum

Við höfum öll upplifað þetta. Suma daga lítur maður í spegilinn, bregður auga á vel gelaða Guðmunds Steingrímsson klippinguna, dökk jakkafötin með ekki alveg hvítu skyrtunni og posamiðasafnið af Kaffibarnum, og sér að það vantar eitthvað. Jú, vissulega er maður ennþá hálfviti, en eins og strípurnar og hvítu bolirnir forðum er gamli stíllinn orðinn þreyttur. Það vantar eitthvað nýtt, eitthvað ögrandi, eitthvað gjörsamlega fáránlegt.

Til allrar hamingju vita Frakkarnir svarið. Í fæðingarlandi Ástríks hefur sjálfkviknað algerlega ný tegund fullkominna hálfvita, sem getur orðið okkur öllum ferskur andvari er hreyfir blóm kirsuberjatrjánna blíðlega við lygna tjörn að vori. Í aðeins fjórum einföldum skrefum má breyta lífi sínu og móta það í form sem aðeins móðir gæti elskað. Langar þig að vita meira..?

Við vitum öll að fötin skapa manninn og forynjan okkar er engin undantekning. Auðvitað hefur maður visst frelsi í fatavali, en það eru nokkrar grunnreglur sem ber að hafa í huga. Í fyrsta lagi, og ég get ekki lagt næga áherslu á þetta, er algert lykilatriði að finna sér hvítar buxur. Helst það hvítar að þær endurkasti meira ljósi en á þær skín, og þröngar sem músareyra. Við þær fer maður svo í íþróttaskó, sem mega vel vera hvítir, og einhvers konar einlitan bol. Svartur klikkar aldrei, og hvítur er sívinsæll, en flest annað ber vott um fávissu.

Alveg jafn mikilvægt og fatavalið er almennt útlit og fylgihlutir. Fullkomnun verður nafn manns er maður finnur hliðartösku á stærð við póstkort sem mun geyma lykla, veski og slíkt. Eina bungan sem á að finnast í fannarbuxunum á að orsakast af ögrandi limastærð sjálfsins, nú eða haganlega staðsettu sokkapari ef maður er einn þeirra sem Drottinn elskar ekki. Ofan á þetta bætist svo hermannaklipping með möguleikum á sjálfstjáningu, því hnakkinn og hliðar höfuðsins eru auglýsingaskilti náttúrunnar. Við grípum því rakvélina og skerum í flott munstur, grípandi skilaboð, eða hvað annað sem hugurinn girnist.

Þetta stuðlar allt saman að því að maður vekur athygli pöpulsins á götunni, en til lítils er að hafa alla þessa athygli ef hrifning þeirra nær ekki undir yfirborðið. Fegurðin kemur jú innan frá, alla vega hjá ljótu fólki, og passa verður að undrunin haldist þegar hinir óþvegnu hefja samræður. Svarið felst í að tala Verlong. Upphaflega er Verlong mállýska af frönsku sem er töluð í hinum mest hipp og kúl hlutum Parísar, en lítið mál er að heimfæra hana til Íslands. Verlong gengur út á að maður hefur skipti á fyrsta og síðasta sérhljóða orða; sem dæmi verður algengi frasinn

Láttu mig hafa fjóra bjóra og reyndu að spassa því ekki í klessu helvítis sýningareintakið þitt.

að eftirfarandi

Luttá mig hafa fjaró bjaró og rundey að spassa því ikke í klusse hilvítes siningareintakýð þitt.

Það tekur smá stund að ná almennilegri færni í Verlong, en lykillinn er að taka saman lista yfir þau orð sem maður notar mest og æfa þau sér, restin kemur af sjálfu sér.

Að lokum er mikilvægt að umkringja sig með einkennandi tónlist og viðeigandi dansi. Að finna tónlistina er einfalt; maður byrjar á almennu Evruruslteknói og færir sig stöðugt í átt vaxandi sársauka. Ef þú getur ekki hlustað á það í fimm mínútur án þess að froðufella og fá flogakast ertu á réttu róli. Þetta leikur maður svo hátt við öll tækifæri. Dansinn kemur einnig í dós í formi Tecktonik. Það er nokkuð erfitt að lýsa hinum flæðandi hreyfingum hans í orðum, svo lítið sýningarmyndband verður að nægja.

Margir halda að þessi þokkafulli dans sé eitthvað sem beri að spara og grípa aðeins til við betri tækifæri. Þetta er rangt. Augnablik án Tecktonik er augnablik sem má missa sig, endilega dansaðu Tecktonik í strætó, í miðri kennslustund, eða bara úti á götu. Heimurinn má til með að sjá þig.

Voila! Ef allt hefur farið að óskum stendur þú núna á miðjum Laugarveginum, framleiðir þitt eigið ljós með fatnaði þínum, heillar vegfarendur með ítarlegum skilaboðum sem eru rökuð á haus þinn, dansar hinn seiðandi Tecktonik og öskrar á alla sem reyna að hafa samskipti við þig á kunnulegu en samt framandi tungumáli. Ég veit ekki margt í þessum heimi, en ég veit að þú ert alger hálfviti, og ég er stoltur af þér.

Þetta er erfitt líf

Jæja, ég er farinn til Parísar að sitja á kaffihúsum, ná mér í sýfilis og lenda í óeirðum.

Þið vitið, þegar maður er í Róm...

Edit: We've come a long way, baby. Skítt með kort af bæjarhlutum, ítarlegar gervihnattamyndir eru málið.

Djöfull verður þetta köttað

Síðustu vikur er ég búinn að vera að leika mér að því að láta mér detta í hug söguþræði og fléttur, og almennt búinn að gera meira af því að skrifa hluti sem gætu hugsanlega talist skáldskapur. Mér finnst þetta gaman og ætla þess vegna að halda því áfram, en mér finnst mjög skemmtilegt hvernig maður þróar með sér ákveðið ferli til að koma svona hlutum frá sér.

Til dæmis er komið í vana hjá mér að hripa niður aðalatriðin fyrst, því ég hef náttúrlega ekki skrifað neitt ennþá sem hefur einhverja lengd, og fylla svo upp í þau eitt af öðru. Það er þá fyrsta uppkast sem maður endar með. Í því hef ég byrjað að fylgja Stephen King; í einhverri grein eftir hann las ég að honum þætti betra að dúndra út sögunni fyrst og fínpússa svo eftir á. Mér finnst þetta alveg fínt ráð, en það er mjög spes tilfinning að skrifa eitthvað, sjá strax að maður á eftir að henda því í næstu umferð, og halda samt áfram.

Annað sem maður sér fljótt að ekki allar hugmyndir sem maður fær eru sigurvegarar. Þegar ég fór til Írlands keypti ég mér svona svarta mjúka glósubók sem ég er búinn að krota út einn þriðja af. Og þar, kæru vinir, er að finna rusl. Þar er allt frá andvana bloggfærslum yfir í mjög vondar hugmyndir að smásögum sem urðu blessunarlega aldrei að veruleika.

Það sem kemur mér hins vegar ekkert á óvart við þetta er að ég skrifa miklu betur edrú en ekki. Maður lærir einn eða tvo hluti í stærðfræði.

Herkúles, góður vetur og hetjumótmæli

Jæja, mánuðurinn er hálfnaður svo það er kominn tími til að henda allri tónlistinni sem maður er búinn að hlusta á síðustu vikur og finna eitthvað nýtt.

Fyrst; eitthvað sem heitir Hercules and Love Affair. Þau fá prik fyrir skemmtilegt hljómsveitarnafn, sem hefur alltaf verið ábending um góða tónlist og er það áfram. Þetta er svona hresst taktfast dót sem er ekki verra fyrir að Antony úr samnefndum og the Johnsons syngur eitthvað með þeim.

Hercules and Love Affair - Blind

Svo er það Bon Iver, sem útlegst Góður Etur á íslenskunni. Fyrir utan limlestingar á franskri tungu býður Bon Iver upp á einlægan mann með kassagítar sem skiptist á að minna mig á Jose Gonzales og Bonnie Prince Billy. Ég á eftir að ákveða hvort hann fer í taugarnar á mér eða ekki, en ég ætla alla vega að gefa honum tækifæri, svo hann stendur sig strax betur en margir aðrir.


Bon Iver - Flume

Að lokum eru það ungir reiðir menn í Protest the Hero sem hafa hugsanlega séð Hringadróttinssögu of oft, tíminn og nánari textaskoðanir munu skera út um það. Þangað til því verki lýkur er þó hægt að hafa gaman af gríðarlega þéttum metal sem sparkar í rassa og... áhugaverðum söng. Bónusstig eru veitt fyrir að koma auga á ,,Goodbye sober day'' vísanirnar.

Protest the Hero - Bloodmeat

Og ef þið fílið þetta ekki er ekkert einfaldara en að fara á Metacritic eða Pop matters, finna eitthvað áhugavert og sjá hvort það er ekki á Youtube. Á 21. öldinni er fullyrðingin um að það komi ekki út nein skemmtileg ný tónlist úreld og ber aðeins vott um leti viðkomandi. Þeir fiska sem róa.